Fréttir

Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi

Í dag fer fram ráðstefnan Fjölbreytt forysta, sem Jafnréttisstofa stendur að í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Kauphöllina, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Á ráðstefnunni er fjallað um niðurstöður rannsókna um konur og karla sem stjórnendur og stjórnarfólk í fyrirtækjum. Á ráðstefnunni fjallar Dr. Þorgerður Einarsdóttir, kynjafræðingur um niðurstöður rannsóknarskýrslunnar Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi. 

Alþjóðleg ráðstefna um fjölbreytta forystu í atvinnulífinu

Jafnréttisstofa í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Kauphöllina, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík skipuleggur nú alþjóðlega ráðstefnu um fjölbreytta forystu í atvinnulífinu. Ráðstefnan veitir fólki í viðskiptalífinu, fræðimönnum og sérfræðingum tækifæri til að ræða gildi fjölbreyttrar forystu þegar kemur að ákvarðanatöku, rekstri og vinnumenningu fyrirtækja.

Kyn, starfsframi og laun

Miðvikudaginn 20. maí efnir aðgerðahópur um launajafnrétti til morgunverðafundar á Grand Hótel Reykjavík. Á dagskrá fundarins er kynning á niðurstöðum rannsóknar um kynbundinn launamun og skýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Aðgerðahópur um launajafnrétti var skipaður árið 2012. Verkefni aðgerðahópsins eru meðal annars að samræma rannsóknir um kynbundinn launamun og annast kynningu og fræðslu um innleiðingu jafnlaunastaðals. Nánar um dagskrá og skráningu hér.

Heilbrigði kvenna í 100 ár

Jafnréttisstofa og Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri halda ráðstefnu þann 26. maí nk.um heilbrigði kvenna í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Ráðstefnan er öllum opin en hún fer fram í stofu M101 í HA frá kl. 9 .00-17.00. 

Styrkjum til atvinnumála kvenna úthlutað

Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað við hátíðlega athöfn í Bláa lóninu þann 30. apríl síðastliðinn.  Alls fengu 33 verkefni styrki að heildarupphæð kr. 35 milljónir.  Sjóðnum bárust 239 umsóknir sem ráðgjafarnefnd hefur metið á undanförnum vikum. Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur á Jafnréttisstofu, á sæti í ráðgjafanefndinni en nefndin er einnig skipuð fulltrúum frá velferðarráðuneyti, Vinnumálastofnun og Byggðastofnun. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti styrkina í ár.

Afmælismálþing jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogs

Jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogs efnir til afmælismálþings miðvikudaginn 6. maí. Málþingið er haldið í Salnum í Kópavogi.    Karlar og femínismi, forréttindi og 6dagsleiki er meðal þess sem rætt verður á málþinginu þar sem rýnt er í jafnréttismál í samtímanum frá breiðu sjónarhorni. Þá verður ný jafnréttis- og mannréttindastefna bæjarins kynnt en hún var samþykkt í bæjarstjórn í liðinni viku.    Jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogsbæjar fagnar 40 ára afmæli á árinu en Kópavogur var fyrst sveitarfélaga til að setja nefnd um jafnréttismál á laggirnar.

Gestir á Jafnréttisstofu

Í síðustu viku fékk Jafnréttisstofa heimsókn frá Human Rights Monitoring Institute í Litháen. Markmið ferðar þeirra til Íslands var að kynna sér starfsemi stofnanna og félagasamtaka hér á landi og mögulegt samstarf í gegnum styrkjakerfi EFTA. Á fundinum með Jafnréttisstofu var farið yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi, jafnréttislöggjöfina og fjallað nánar um nokkur atriði sem gestirnir höfðu áhuga á að kynna sér. Þar ber helst að nefna fæðingarorlofskerfið og kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. 

Brautryðjendur í stjórnmálum hljóta jafnréttisviðurkenningu

Jafnréttisráð veitir árlega jafnréttisviðurkenningar en í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna ákvað Jafnréttisráð í ár að heiðra þær núlifandi konur sem með störfum sínum á Alþingi og í ríkisstjórn hafa rutt brautina og stuðlað að auknu jafnrétti á sviði stjórnmálanna. Konurnar eiga sammerkt að hafa verið fyrstar núlifandi kvenna til að gegna veigamiklum embættum í íslenskum stjórnmálum, þ.e. sem forseti Alþingis, sem ráðherra og sem formenn þingflokka. Nánari upplýsingar um verðlaunahafa og myndir frá afhendingunni má sjá á síðu Velferðarráðuneytis.

Skýrsla um jafnrétti á norðurslóðum

Skýrslan Gender Equality in the Arctic: Current Realities, Future Challenges er komin út. Skýrlan er unnin af utanríkisráðuneytinu og byggir á tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var á Akureyri í lok október síðastliðinn.

Vefsíðan Fjölbreytt forysta er komin í loftið

Vefsíðan fjolbreyttforysta.is er í eigu Jafnréttisstofu og er unnin með styrk frá Progress sjóði ESB. Síðunni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi jafnrar þátttöku kynjanna í forystu íslensks atvinnulífs. Á vefsíðunni er að finna fræðsluefni um stjórnarhætti og stjórnunarstörf og viðtöl við fólk með reynslu af stjórnarsetu, sérfræðinga og fólk úr atvinnulífinu.