Fréttir

Öskudagur á Jafnréttisstofu

Í dag er öskudagur og gestir Jafnréttisstofu þennan miðvikudagsmorgun hafa því verið óvenju skrautlegir. Hóparnir voru augljóslega búnir að æfa söngvana vel og það mátti líka sjá að metnaður í búningagerð er mikill.  Starfsfólk jafnréttisstofu þakkar öllum sem lögðu leið sína til okkar og látum hér fylgja nokkrar myndir.

Boð um þátttöku á vinnufundi félagasamtaka, ASÍ og Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa hefur sent boð til ýmissa félagasamtaka um þátttöku í vinnufundi í tengslum við tuttugu ára afmæli Peking áætlunarinnar. Fundurinn fer fram næstkomandi laugadag 21. febrúar í húsakynnum ASÍ. Markmið fundarins er að ræða og svara spurningum á borð við: Hvaða ákvæði Pekingsáttmálans hafa íslensk stjórnvöld ekki uppfyllt? Hvað vantar í samninginn miðað við þróun síðustu 20 ára? Hver eru brýnustu verkefni jafnréttismála?

Konur og afbrot

Fimmtudaginn 12. febrúar mun dr. Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, halda erindi um tengsl afbrotafræðinnar og spurninga um jafnrétti kynjanna. Þær spurningar sem verða til umræðu í fyrirlestri Helga eru meðal annars: Er jafnréttisbaráttan bara fyrir konur eða eiga karlar á brattann að sækja? Ef konur færu nú að hegða sér eins og karlar myndi ríkja skálmöld afbrota eða hvað? Ef karlar færu nú að hegða sér eins og konur værum við þá komin í draumasamfélagið? Erindið fer fram í Deiglunni, Listagilinu á Akureyri og hefst klukkan 1700. 

Samstarf Jafnréttisstofu og félagasamtakanna Kongres Kobiet frá Póllandi

Sterkari saman (e. Strong together) er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og félagasamtakanna Kongres Kobiet (e. The Congress of Women) frá Póllandi. Markmið samstarfsins er tvíþætt. Annars vegar að auka þekkingu á birtingarmyndum kynjanna í stjórnmálum og fjölmiðlum og hins vegar að stuðla að aukinni sérfræðikunnáttu á kynjajafnrétti almennt með því meðal annars að kynna og nota verkfæri kynjasamþættingar.

Frá bústýru til bæjarstjóra

Miðvikudaginn 4. febrúar kl. 12.00-13.00 flytur Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri og þingkona erindið „Frá bústýru til bæjarstjóra. Um kosningarétt kvenna og þátttöku í sveitarstjórnum”. Félagsvísindatorgið verður í stofu M101 og er öllum opið án endurgjalds. 

Dagatal - Kosningaréttur kvenna í 100 ár 1915-2015

Jafnréttisstofa hefur gefið út dagatal fyrir árið 2015, þar sem þess er minnst að hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu í fyrsta skipti kosningarétt. Forsaga kosningaréttar kvenna er sú að Alþingi samþykkti haustið 1913 og staðfesti 1914 stjórnarskrárbreytingu sem fól í sér að konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt til Alþingis. Í tilefni tímamótanna starfar framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar og hefur umsjón með ýmsum viðburðum á árinu. Um nefndina og viðburði sem hún stednur fyrir má lesa á heimasíðunni kosningarettur100ara.is Þeir sem hafa áhuga á að eignast dagatalið geta sent póst á netfangið jafnretti@jafnretti.is Jafnréttisstofa sendir dagatalið gegn greiðslu sendingakostnaðar.

Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn Jafnréttismat

Í jafnréttislögum segir að jafna eigi stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagins með því að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagins. Þetta þýðir m.a. að við alla áætlanagerð, stefnumótun og gerð lagafrumvarpa þarf að taka til greina ólíka stöðu kynjanna og móta verkefni þannig að þau auki réttlæti og kynjajafnrétti.

Fræðslufundir í fyrirtækjum um gerð jafnréttisáætlana

Um þessar mundir býður Jafnréttisstofa fyrirtækjum fræðslufundi um gerð aðgerðabundinna jafnréttisáætlana. Í jafnréttislögum segir að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér aðgerðabundna jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.

Rakarastofuráðstefna Íslands og Súrínam

Á fjórða hundrað tóku þátt í jafnréttisráðstefnu sem Ísland og Súrínam stóðu að í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Hugmyndin að baki Rakarastofuráðstefnunni er að virkja karla í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og voru ráðamenn og baráttufólk fyrir kynjajafnrétti fengnir til að velta upp hugmyndum um hvernig ætti ná betri árangri.

Vitundarvakning – fræðslumyndbönd frumsýnd

Í vikunni frumsýndi Vitundarvakningin tvö fræðslumyndbönd undir heitinu Leiðin Áfram. Myndböndin eru eru fyrir tvo aldursflokka; 14 ára og yngri og 15 ára og eldri. Í þeim er kynning réttarvörslukerfinu og upplýsingar sem auðvelda þolendum kynferðisofbeldis að sækja sér aðstoð. Myndböndin má nálgast á heimasíðunni www.leidinafram.is Hlutverk Vitundarvakningar er stuðla að forvarnarstarfi í málaflokki ofbeldis gegn börnum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn.