Fréttir

Námskeið um mansal

Endurmenntun Háskóla Íslands stendur fyrir námskeiði um mansal þann 25. september nk. Námskeiðið er haldið í samstarfi við íslenskan samstarfshóp norræna-baltneska tilraunaverkefnisins, sem vinnur að stuðningi, vernd, endurhæfingu og öruggri heimför kvenna sem hafa orðið fyrir mansali. 

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði og veiting jafnréttisviðurkenningar

Jafnréttissjóður veitir í dag fimm styrki til rannsókna á sviði jafnréttismála og kynnir verkefni sem fengu styrk á síðasta ári. Jafnréttisráð veitir einnig sína árlegu viðurkenningu á sama tíma. Dagskráin fer fram kl. 15-19 á Hilton Reykjavík Nordica (áður Nordica) 2. hæð.

Jafnréttisstofa á Ísafirði á morgun

Jafnréttisstofa verður með opinn hádegisfund um jafnréttismál og ný jafnréttislög á Ísafirði á morgun, fimmtudaginn 4. september. Fundurinn verður haldinn í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði og hefst kl. 12.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar heldur Landsfund jafnréttisnefnda sveitarfélaga 18. - 19. september

Jafnréttisþing í Mosfellsbæ 18. september

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stendur fyrir jafnréttisþingi sem haldið verður í Hlégarði í Mosfellsbæ fimmtudaginn 18. september. Þingið er haldið til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur í samvinnu við Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands.

Námsstyrkir til einstæðra mæðra

Menningar- og minningarsjóður kvenna úthlutar styrk úr sjóðnum í haust og hefur sjóðurinn auglýst eftir styrkumsóknum. Að þessu sinni verður styrkurinn veittur einstæðum mæðrum, 25 ára og yngri, sem hyggjast stunda nám á komandi vetri. Einkum verður litið til þeirra sem eru á leið í nám á ný eftir nokkurt hlé.

Jafnréttisstofa á ferð um landið

Í haust mun starfsfólk Jafnréttisstofu ferðast um landið, kynna ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og ræða jafnrétti kynjanna við landsfólk. Til stendur að halda sex opna fundi. Fyrsti fundurinn verður í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, fimmtudaginn 4. september kl. 12:00.

Jafnréttisstofa færir Akureyrarbæ gjöf

Í tilefni afmælis Akureyrarbæjar mun Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu færa bænum leiðarlýsingu Kvennasögugöngu Jafnréttisstofu, Minjasafnsins á Akureyri og Zontakvenna á Akureyri sem farin var 19. júní síðastliðinn. Þessi fyrsta Kvennasöguganga á Akureyri tókst mjög vel og voru þátttakendur um 150. Gangan myndaði nýja tengingu við innbæinn og varpaði ljósi á líf kvenna sem bjuggu og störfuðu þar og höfðu margar hverjar mikil áhrif á líf bæjarbúa á sínum tíma.

Fyrirlestrar um jafnrétti kynjanna

Bandalag háskólamanna stendur fyrir tveimur fyrirlestrum um jafnréttismál í næsta mánuði. Fyrirlestrarnir eru hluti af fræðsludagskrá sem fræðslunefnd BHM býður félagsmönnum upp á í vetur. Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, miðlar af reynslu sinni í jafnréttismálum á fyrri fyrirlestrinum, en á þeim seinni verða nýju jafnréttislögin kynnt.

Neyðarkort fyrir konur sem sæta ofbeldi

Gefið hefur verið út neyðarkort ætlað konum í nánum samböndum sem sæta ofbeldi og þurfa að leita sér hjálpar. Að útgáfu kortsins stendur samráðsnefnd Jafnréttisstofu, félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en nefndin hefur með höndum að hrinda í framkvæmd áætlun um aðgerðir vegna ofbeldis gegn konum í nánum samböndum.