Fréttir

Ný evrópsk námskrá um jafnréttisfræðslu

Undanfarin tvö ár hefur Jafnréttisstofa tekið þátt í verkefni um samræmda jafnréttisfræðslu í Evrópu. Frumkvöðull þessa verkefnis var jafnréttisskrifstofa fylkisins Niederösterreich sem staðsett er í borginni St. Pölten norður af Vínarborg. Aðrir þátttakendur voru fulltrúr félagasamtaka í Króatíu og Litháen. Verkefninu er nú lokið með útgáfu „námskrár“  (e. curriculum) sem ætlað er að gagnast öllum þeim sem þjálfa fólk til jafnréttisfræðslu (e. train the trainers).

Nýr gagnagrunnur um Norræn samstarfsverkefni á sviðum jafnréttismála

Síðustu þrjú ár hefur  NIKK, Norræn upplýsingamiðstöð um kynjajafnrétti, styrkt rúmlega 120 samstarfsverkefni á Norðurlöndunum. Verkefnin eiga það sameiginlegt að hljóta styrkina í gegnum Norræna Jafnréttissjóðinn sem NIKK hefur umsjón með en er rekinn af Norrænu ráðherranefndinni.  Nú hefur NIKK gert aðgenilegan gagnagrunn sem kynnir þessi verkefni og veitir upplýsingar um markmið þeirra og ábyrgðaraðila. 

Fjölmiðlaviðurkenning Jafnréttisráðs 2016

Jafnréttisráð óskar eftir tilnefningum til fjölmiðlaviðurkenningar Jafnréttisráðs.  Í ár mun Jafnréttisráð, ásamt ráðherra jafnréttismála, veita sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu aðilum sem hafa skarað fram úr þegar kemur að umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna á liðnu ári. Viðurkenningu getur hlotið:  a. Fjölmiðill sem skarað hefur fram úr á sviði jafnréttismála, s.s. hvað varðar efnistök, umfjöllun og miðlun efnis.  b. Þáttur, þáttaraðir, greinar eða annað afmarkað efni þar sem jafnrétti er sérstakt viðfangsefni eða leiðarstef. c. Einstaklingur sem með störfum sínum á fjölmiðli hefur unnið sérstaklega að jafnréttismálum. 

Breytt staðsetning á námskeiði

Vegna mikillar aðsóknar hefur staðsetningu námskeiðsins verið breytt. Það verður haldið í Odda, stofu 101, í byggingu Háskóla Íslands að Sturlugötu 3, 101 Reykjavík. Skráningu er lokið en rúmlega 100 manns skráðu sig. 

Námskeið Jafnréttisnefndar KÍ og Jafnréttisstofu

Jafnréttisnefnd KÍ og Jafnréttisstofa bjóða grunnskólakennurum upp á hagnýtt námskeið í jafnréttis- og kynjafræðikennslu. Námskeiðið er aðallega hugsað fyrir kennara í efri bekkjum grunnskólans (5.-10. bekk) og hentar fyrir kennara í öllum fögum. Námskeiðið fer fram fimmtudaginn 18. ágúst kl. 14-16 í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík. Skráning á námskeiðið fer fram á HÉR Ekkert þátttökugjald en nauðsynlegt er að skrá sig! Sjá einnig facebook síðu námskeiðsins HÉR

Góðar heimtur á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga

Jafnréttisstofa hefur tekið á móti og samþykkt jafnréttisáætlanir hjá 54 af 74 sveitarfélögum landsins. Þetta eru heimtur upp á 73%, sem telst mjög góður árangur. Í samræmi við 12. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum  frá öllum sveitarfélögum í október 2015. Jafnréttisstofa fór yfir allar innsendar jafnréttisáætlanir og gerði athugasemdir við þær kom með  ábendingar eftir því sem átti við. Um mánaðamótin júní/júlí var verkefninu lokið af hálfu Jafnréttisstofu, en þá var ítrekað búið að hafa samband við þau sveitarfélög sem ekki voru búin að senda inn jafnréttisáætlanir til samþykktar. Jafnréttisstofa tekur að sjálfsögðu enn á móti jafnréttisáætlunum frá þeim sem ekki hafa skilað áætlun til samþykktar ennþá.

Takið daginn frá

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn á Akureyri föstudaginn 16. september n.k. Í tengslum við fundinn boðar Jafnréttisstofa til ráðstefnu í tilefni fjörutíu ára afmælis jafnréttislaga. Ráðstefnan, sem er öllum opin, fer fram fimmtudaginn 15. september.

Jafnréttismat á frumvörpum

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á að með nýju frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar, fylgir sérstakt jafnréttismat. Jafnréttismatið er unnið í samræmi við innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Samkvæmt áætluninni skal jafnréttismeta 10% frumvarpa sem lögð eru fram í ár og á hlutfallið að vera komið upp í 100% frumvarpa árið 2019. 

Jafnréttisvísar

Norrænaráðherranefndin gefur út  Jafnréttisvísa sem nú eru einnig aðgengilegir á íslensku. Jafnrétti kvenna og karla er grundvallargildi á Norðurlöndum. Kynjajafnrétti vísar til jafns réttar, jafnrar ábyrgðar og jafnra tækifæra á öllum sviðum lífsins fyrir konur og karla og stráka og stelpur. Það þýðir að allir einstaklingar – óháð kyni – hafa jafn mikil völd og áhrif í samfélaginu. Nauðsynlegt er að nota vísa og taka saman tölfræði sem endurspeglar líf kvenna og karla til að fylgjast með framförum á þessu sviði, til að takast á við vandamál og til að byggja stefnumótun og áætlanir á – en líka til að miðla þekkingu til almennings. Söfnun og notkun tölfræðiupplýsinga um jafnrétti kynjanna er lykilþáttur í því að stuðla að jafnrétti kynjanna í samfélaginu.

Vísindaskóli unga fólksins heimsækir Jafnréttisstofu

Í dag komu krakkar úr Vísindaskóla unga fólksins í heimsókn á Jafnréttisstofu. Hópurinn hafði fengið það verkefni að vinna frétt um starfsemi stofnana að Borgum á Akureyri. Því var kjörið að taka viðtal við framkvæmdastýru Jafnréttisstofu og spyrja hana um dagleg verkefni, hlutverk jafnréttislaga og ræða stuttlega um stöðu karla og kvenna á Íslandi.  Krakkarnir vinna síðan efnið úr viðtölum í þátt sem sýndur er í Vísindaskólandum. Tilgangur skólans er að veita krökkum tækifæri til að læra um málefni sem tengjast réttindum barna, heilsu, tækni, fjölmiðlum og umhverfismálum. Vísindaskólinn er nú starfræktur í annað sinn við Háskólann á Akureyri.