Fréttir

Stofnfundur Félags kvenna í vísindum

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á stofnun nýs félags. Stofnfundur Félags kvenna í vísindum fer fram þann 11. febrúar 2016 kl. 17 í Tjarnarsal Íslenskrar Erfðagreiningar, Sturlugötu 8. Félagið er hugsað sem vettvangur fyrir konur í vísindum til að hittast, mynda og efla tengsl sín á milli. Þá er sérstaklega verið að horfa til þess félagið geti stuðlað að því að konur í vísindum myndi sterk og varanleg stuðnings- og tengslanet en skortur á þeim er talin vera ein af orsökum kynjahalla í vísindum. Allar konur sem stunda rannsóknir á öllum fræðasviðum eða koma að vísindavinnu í einhverri mynd eru velkomnar, hvort sem þær vinna innan veggja háskólanna, í rannsókna-stofnunum, akademíum eða úti í fyrirtækjum.

Stöðvum hrelliklám

Kvenréttindafélag Íslands hefur gefið út skýrslu um hrelliklám. Í skýrslunni er löggjöf ýmissa landa gegn hrelliklámi kynnt og rýnt í viðhorf ungs fólks hérlendis til hrellikláms.

Styrkir til samstarfsverkefna á Norðurlöndum

Ert þú með hugmynd að norrænu samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála?  Í mars kallar NIKK (Norræn þekkingar- og upplýsingamiðstöð um jafnréttismál) eftir umsóknum til verkefnastyrka en í ár verður  2,7 miljónum danskra króna úthlutað. Norrænu jafnréttisráðherrarnir vilja með þessum sjóði styðja við bakið á norrænu samstarfi sem er hluti af samstarfsáætlun þeirra í jafnréttismálum. 

Jafnréttislög í 40 ár

Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð gefa út dagatal í ár sem er tileinkað 40 ára afmæli jafnréttislaga  en það var árið 1976 sem lög um jafnstöðu kvenna og karla voru lögfest  á Íslandi. Á dagatalinu er skemmtileg teikning eftir Þóreyju Mjallhvíti H. Ómarsdóttur sem sýnir hvernig ásýnd samfélagsins hefur breyst á þessum 40 árum sem eru liðin frá gildistöku laganna og vísar hún einnig til þess að enn er verk að vinna þegar kemur að jafnrétti kynjanna hérlendis.  Dagatalið verður sent öllum leik- , grunn, og framhalsskólum á næstu dögum þar sem það getur nýst einstaklega vel við fræðslu um jafnréttismál. Dagatalið má nálgast  hjá Jafnréttisstofu í gegnum netfangið: jafnretti@jafnretti.is  og kostar það 1000 kr. með sendingarkostnaði.

Nýtt námskeið: Kynjuð fjárhagsáætlunargerð - aðferðir og framkvæmd

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands býður upp á nýtt námskeið um kynjaða fjárhagsáætlanagerð. Kynjuð hagstjórn er almennt skilgreind sem samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við fjárhagslega áætlanagerð með það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna.  Undanfarin ár hafa opinberir aðilar á Íslandi verið að tileinka sér kynjaða fjárlagagerð til að stuðla að í senn kynjajafnrétti og réttlátari dreifingu gæða og fjármuna. Formleg innleiðing aðferðarinnar hófst hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu árið 2009 og ný lög um opinber fjármál frá 2015 kveða á um að gerð frumvarps til fjárlaga skal taka mið að kynjaðri fjárlagagerð. Meðal sveitarfélaga hefur Reykjavíkurborg gengið lengst í að innleiða aðferðina, en relgur borgarinnar kveða á um að fjárhags- og starfsáætlunargerð skal byggjast á kynjaðri fjárhagsáætlunargerð.  Markmið námskeiðisins er að auka þekkingu þátttakenda á hugmyndafræði og aðferðarfræði kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar og færni við að beita aðferðum hennar við áætlunargerð.  Í því felst að greina kynjaáhrif útgjalda og/eða þjónustu sem veitt er, endurmóta stefnumið og skiptingu fjármagns  sem og að flétta kynja- og jafnréttissjónarmiðum inn í öll ferli. 

Myndbandsupptökur frá ráðstefnu í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna var efnt til alþjóðlegrar hátíðarráðstefnu í Hörpu dagana 22.-23. október 2015. Ráðstefnan var tekin upp og nú eru erindi og annað efni aðgengilegt á Youtube-rás Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Ólíkir sjúkdómar herja á konur og karla

Sjúkratryggingar Íslands hafa sent frá sér athyglisverða samantekt á aldurs- og kynjadreifingu sjúklinga sem leita til sérfræðilækna. Almennt leita mun fleiri konur til sérfræðilækna en karlar og er margt athyglisvert að skoða hvað varðar einstakar sérgreinar. 

Námskeið um notkun og innleiðingu jafnlaunastaðals

Athygli er vakin á fjórum vinnustofum um jafnlaunastaðal sem boðað hefur verið til hjá Starfsmennt í lok janúar og byrjun febrúar nk. Markmiðið er að auka færni og þekkingu stjórnenda á vinnustöðum sem vilja auka gegnsæi og gæði launaákvarðana með notkun jafnlaunastaðals. Áhugasamir geta sótt stakar vinnustofur að eigin vali, eða allar í tímaröð, eftir áhuga og aðstæðum.

Byltingin 2015 - og hvað svo?

Að loknu byltingarlituðu 100 ára afmælisári kosningaréttar kvenna boða konur í stjórnmálaflokkunum sem sitja á Alþingi til málþings þar sem litið verður yfir stöðuna að loknu byltingarárinu 2015 og fjallað næstu skref feminískrar baráttu.  Einstaklingar sem tóku þátt í byltingarárinu 2015 munu halda áhugaverð erindi þar sem farið er yfir stöðu jafnréttismála, hindranir og framtíðarsýn í málaflokknum. Frummælendur taka þátt í pallborðsumræðum að loknum erindum og tekið verður við spurningum úr sal.  Málþingið fer fram þann 20. janúar kl. 16.00 á Hilton Reykjavík Nordica.

Solving the Nordic Gender Paradox: Gender Gaps in the Research and Innovation Area

Fimmtudaginn 14. janúar stendur Rannís í samvinnu við NordForsk fyrir kynningarfundi um nýja rannsóknaráætlun, Solving the Nordic Gender Paradox: Gender Gaps in the Research and Innovation Area. Fundurinn verður haldinn hjá Rannís, Borgartúni 30, í fundarsal á 3ju hæð kl. 10:00 - 12:00.