Fréttir

Kjarajafnrétti strax!

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX!  Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38. 

Burt með launamuninn

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins kynnir tillögur um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum á morgunverðarfundi á Reykjavík Hilton Nordica, mánudaginn 24. október næstkomandi kl. 8.00–10.30.  Samhliða kynningu á tillögum aðgerðahópsins mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opna vefsíðu jafnlaunastaðalsins og kynna nýtt jafnlaunamerki. Á fundinum verður jafnframt sagt frá tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og forystufólk atvinnulífsins tekur þátt í pallborðsumræðum um hvernig hrinda megi tillögum um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum í framkvæmd. 

Jafnréttisdagar Háskóla Íslands 2016

Jafnréttisdagar eru nú haldnir áttunda árið í röð í Háskóla Íslands. Að þessu sinni hefst dagskráin mánudaginn 10. október og lýkur föstudaginn 21. október. Sem fyrr er ókeypis á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur öllum heimill. Jafnréttisdagar tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínísma og skoða fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Áhersla er lögð á þau tækifæri sem skapast með því að setja hugmyndir um normið – hið „eðlilega“ – og hið undirskipaða undir smásjána. Dagskráin er fjölbreytt og byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem gerð er tilraun til að sameina hátíðarbrag og gagnrýna sýn stöðu jafnréttismála. Leitast er við að skapa opna umræðu og aukinn skilning á jafnrétti ásamt því að auka sýnileika jafnréttismála og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti. Allir háskólar landsins taka þátt í jafnréttisdögum og má finna upplýsingar um dagskrá annarra háskóla á heimasíðum þeirra. Að öðru leyti er hægt að fylgjast með Facebooksíðu Jafnréttisdaga til að fá upplýsingar um viðburði allra háskólanna.

Jafnréttisdagar Háskólans á Akureyri

Jafnréttisráð Háskólans á Akureyri stendur fyrir dagskrá á Jafnréttisdögum sem fara fram í Háskólanum á Akureyri dagana 10. – 13. október næstkomandi. Dagskráin er afar fjölbreytt en jafnréttisdagarnir eru samstarfsverkefni allra háskóla í landinu. Þemað í ár er ljósið. Opnun Jafnréttisdaga í Háskólanum á Akureyri hefst mánudaginn 10. október klukkan 9.30 á því að kveikt verður á kertum og ljósaseríum í Miðborg, anddyri skólans, en síðan mun Anna Richardsdóttir, listakona, fremja þar „Hreingjörning“. Þar á eftir, kl. 10.00, mun FSHA (Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri) og alþjóðadeild skólans standa fyrir jafnréttis- og tungumálakaffi en þar geta gestir keypt kaffi og „jafnréttismúffur“. Auk þess gefst tækifæri til að fræðast um erlend tungumál og spreyta sig á þeim.  Í Miðborg hefur verið sett upp örsýningin „Jafnrétti í augnsýn“ þar sem markmiðið er að minna gesti á hin víðfemu svið jafnréttismála og vekja þá til umhugsunar. Þriðjudaginn 11. október verður opnað Heimspekikaffihús kl. 10 á bókasafni HA í umsjón Margrétar Elísabetar Ólafsdóttur, lektors við kennaradeild. Þar mun Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri LA, ræða um liðveislu sviðslista í jafnréttisbaráttunni og aðferðafræði samyrkju í sviðslistum. Hádegisfyrirlestrar verða haldnir frá mánudegi til fimmtudags og er efni þeirra fjölbreytt. Á mánudag fjallar Hans Jónsson um stöðu hinsegin fólks á Íslandi og á þriðjudag spyr Hildur Friðriksdóttir hvort þörf sé á lagalegri skilgreiningu á hrelliklámi. Á miðvikudeginum verður verkefnið Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir kynnt en þar er á ferðinni samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri ásamt öðrum. Á fimmtudag fjallar Margrét Nilsdóttir um BDSM og jafnrétti. Dagskrá Jafnréttisdaga líkur með lokahófi á vegum FSHA í anddyrinu á Borgum, fimmtudaginn, 13. október, kl. 18-21. Á dagskrá er jafnréttis-quiz í umsjón Bjarka Freys Brynjólfssonar og hljómsveitin Gringlombian spilar. Léttar veitingar verða í boði FSHA. Hér má sjá dagskránna í heild sinni.

JAFNRÉTTISMÁL ERU SVEITARSTJÓRNARMÁL

Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál var yfirskrift landsfundar um jafnréttismál sem haldinn var á Akureyri föstudaginn 16. september. Rúmlega sextíu manns frá 17 sveitarfélögum sátu landsfundinn sem boðað var til af Akureyrarbæ í samstarfi við Jafnréttisstofu. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Síðan tók Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra við fundarstjórn.

Stundin er runnin upp

Á þessu ári eru 40 ár liðin frá því að fyrstu jafnréttislögin voru sett  og Jafnréttisráð var stofnað. Á 16 ára afmælisdegi Jafnréttisstofu 15. september síðast liðinn efndu Jafnréttisráð og stofan til ráðstefnu undir heitinu „Stundin er runnin upp“ en það er tilvitnun í textann Áfram stelpur frá árinu 1975. Eins og allir vita er Jafnréttisstofa staðsett á Akureyri og því þótti við hæfi að halda afmælisráðstefnuna þar. Daginn eftir var landsfundur um jafnréttismál í sveitarfélögunum einnig á Akureyri og því rík ástæða til að tengja þessa viðburði saman. 

Jafnréttisstarf í friðaruppbyggingu: Framlag friðar- og átakafræða

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 21. september, kl. 12.00-12.50, mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu fjalla um jafnrétti, konur, frið og öryggi og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Allir velkomnir. Með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur frið og öryggi, sem var samþykkt árið 2000, viðurkenndi Öryggisráðið í fyrsta skipti sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar. Ályktunin hefur haft áhrif á áherslur og starf alþjóðastofnana sem vinna að friðaruppbyggingu, þar sem nú er sérstaklega kveðið á um skyldur þeirra til að vinna að jafnrétti og taka mið af kynjasjónarmiðum. Friðar- og átakafræði fást við að greina hættu á átökum og vekja athygli á ástæðum þeirra. Meðal markmiða fræðasviðsins er vera leiðbeinandi fyrir þá sem fara með framkvæmd uppbyggingarstarfs á átakasvæðum. Í erindinu fjallar Tryggvi um vandamál og álitamál sem komið hafa upp vegna innleiðingar markmiða í fyrrgreindri ályktun. Umfjöllunin tekur mið af raunverulegum verkefnum í friðargæslu með sérstakri áherslu á áskoranir sem felast í jafnréttisstarfi í umhverfi mismunandi andstöðu. Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og hefur MA gráðu í skipulagsheildum og stjórnun frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu frá árinu 2008. Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.

Miðlað í gegnum meginstrauminn: Ímynd(ir) kvenleika og þegnréttar á Íslandi samtímans 1980-2000

Föstudaginn 23 september ver Guðný Gústafsdóttir doktorsritgerð sína: Miðlað í gegnum meginstrauminn: Ímynd(ir) kvenleika og þegnréttar á Íslandi samtímans 1980-2000.   Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl 14:00 og er öllum opin. Andmælendur eru  dr. Karen Ross, prófessor í kynja- og fjölmiðlafræði við háskólann í Newcastle og dr. Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði, Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði og í doktorsnefnd sátu auk Þorgerðar dr. Helga Kristín Hallgrímsdóttir, dósent við háskólann í Viktoría, Kanada og dr. Sigríður Matthíasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna.

Norræn ráðstefna um ofbeldismál

Dagana 30. nóvember til 2. desember verður haldin ráðstefna í Helsinki, Finnlandi, þar sem fjallað er um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á gerendur í ofbeldismálum og kynna verkefni og úrræði sem skilað hafa bestum árangri á Norðurlöndum.  Ráðstefnan mun verða vettvangur frekari samvinnu þeirra sem vinna að forvörnum í ofbeldismálum og annarra sem fjalla um málflokkinn ýmist í rannsóknum eða þjónustu. Miðlun þekkingar, erindi og vinnustofur taka sérstaklega til eftirfarandi sviða: • Meðferðarþjónusta fyrir gerendur • Rannsóknir á gerendum • Gerendur og félagsleg úrræði Ráðstefnan er liður í dagskrá vegna formennsku Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2016 og er haldin er í samstarfi RIKK – Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, NIKK – norrænnar upplýsingamiðstöðvar um kynjajafnrétti – og velferðarráðuneytis Finnlands.  Hér má finna nánari upplýsingar um ráðstefnuna, dagskrá og skráningu

STUNDIN ER RUNNIN UPP

Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál Föstudaginn 16. september kl. 09:00 boðar Akureyrarbær í samstarfi við Jafnréttisstofu til Landsfundar jafnréttisnefnda sveitarfélaga. Á fundinum verður fjallað um skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum, konur í sveitarstjórn, nýmæli í jafnréttisáætlunum, aðgerðir gegn ofbeldi, jafnrétti í skólastarfi og fleira. Sveitarstjórnarfólk er hvatt til að fjölmenna á landsfundinn.  Dagskrá og skráning á landsfund Jafnréttislög í fjörutíu ár Í tengslum við landsfundinn boða Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð til ráðstefnu fimmtudaginn 15. september kl. 11:00. Tilefnið er að fjörutíu ár eru liðin frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett á Íslandi og fimm manna Jafnréttisráð skipað til að annast framkvæmd laganna. Á ráðstefnunni verður farið yfir þróun jafnréttislaga, stöðuna í dag og hvað sé brýnast að gera. Ráðstefnan er öllum opin. Dagskrá og skráning á ráðstefnuna