Fréttir

Kynferðisleg misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi

Fagráð um meðferð kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar, Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ og Guðrún Ebba Ólafsdóttir bjóða til málþings og námskeiðs um kynferðisleg misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi. Aðalfyrirlesari verður Rev. Dr. Marie M. Fortune frá FaithTrust Institute í BNA. Málþingið verður haldið í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. október kl. 10-13 er ókeypis og öllum opið. Námskeiðið verður haldið í Neskirkju miðvikudaginn 19. október kl. 8:30-17 og kostar 3.000 kr.

Skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneyta

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2010 auk þess sem farið er yfir þróun síðustu missera. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa haft eftirlit með framkvæmd hans. Kynjakvótinn, sem kveðið er á um í 15 grein laga nr. 10/2008, gerir ráð fyrir að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minni en 40% nema hlutlægar ástæður heimili annað.

Ný heimasíða Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum komin í loftið

Á heimasíðunni er þekkingu miðlað um kvenna- og kynjarannsóknir; sagt er frá rannsóknum, ráðstefnum og viðburðum á sviði kvenna-, kynja- og jafnréttisfræða bæði hérlendis og erlendis. Einnig eru auglýstir styrkir, störf og köll eftir fyrirlestrum hvort sem um er að ræða íslenskan vettvang eða erlendan. Heimasíðuna má sjá hér.

Áhugaverðir fyrirlestrar RIKK í haust

Haustdagskrá RIKK (Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum) hefur nú kynnt og er þar að finna marga áhugarverða fyrirlestra. Meðal þeirra er erindi Önnu Wojtynska, doktorsnema í mannfræði við H.Í. um pólska innflytjendur á Íslandi frá kynjasjónarhorni. Anna flytur erindi sinn fimmtudaginn 29. september kl. 12-13 í stofu 102 á Háskólatorgi.

Styrkur til nema í meistaranámi

Jafnréttisráð auglýsir styrk til nema fyrir meistaraverkefni. Um er að ræða rannsókn sem ráðið vill láta vinna fyrir sig til að afla upplýsinga sem ráðið telur mikilvægar. Markmiðið er að kanna hvernig foreldrar brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga í Kópavogi

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum. Landsfundurinn er opinn fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga, en einnig eru velkomnir á fundinn fulltrúar þeirra sveitarstjórna sem ekki hafa skipað jafnréttisnefndir sem og starfmenn sveitarfélaganna. Um fimmtíu fulltrúar hvaðanæva af landinu tóku þátt í fundinum í Kópavogi og fór setningarathöfn fram í Salnum.

Sköpunarmáttur, andóf og konur

Fimmtudaginn 8. september kl. 14:30-16:00 heldur Nawal El Saadawi fyrirlestur í Norræna húsinu á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) og Bókmenntahátíðar í Reykjavík, sem hún kallar „Creativity, Dissidence and Women“ eða „Sköpunarmáttur, andóf og konur“. Í fyrirlestrinum mun El Saadawi kanna merkingu hugtakanna, sköpunarmáttur, andóf og konur, og velta fyrir sér tengslum þeirra við trúarbrögð. Hún mun jafnframt ræða þá ógn sem harðstjórnum heimsins stafar af sköpunarmætti kvenna.

"Kvenmannslaus í kulda og trekki kúrir saga vor"

Nú í sumar var unnin á Jafnréttisstofu rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu fyrir miðstig grunnskóla á Íslandi. Á miðstigi eru börn í 5-7 bekk. Námsbækurnar sem nú eru í boði hjá Námsgagnastofnun í sögu fyrir þetta aldursstig eru 11 talsins og voru þær allar rannsakaðar. Í ljós kom að hlutdeild nafngreindra kvenna í námsefninu er afar takmörkuð eða á bilinu 1-20%. Það vakti sérstaka athygli að nýjar námsbækur í Íslandssögu, Sögueyjan 1. sem kom út árið 2009 og Sögueyjan 2. sem kom út árið 2010 komu verst út þegar jafnrétti milli kynja var skoðað. Það er alvarlegt ekki síst í ljósi þess að nú er þriðja Sögueyjubókin væntanleg og munu Sögueyjubækurnar því spanna alla Íslandssöguna, tímabilið frá landnámi til nútímans.

Opin námskeið um kynjasamþættingu

Jafnréttisstofa býður upp á opin námskeið um kynjasamþættingu í Reykjavík og á Akureyri í september. Á námskeiðunum verður fjallað um stöðu jafnréttismála á Íslandi, í hverju kynjasamþætting felst, hvers vegna við þurfum á skipulögðu jafnréttisstarfi að halda og hvernig mögulegt er að aðlaga aðferðina að starfi þátttakenda.

Bann við mismunun

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gefði út handbókina "Bann við mismunun". Tilgangur ritsins er að kynna tilskipanir ESB um jafnrétti óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú/lífsskoðun, aldri, fötlun og kynhneigð og þá hugmyndafræði sem þar liggur að baki.